Bandaríski flugrekstrarrisinn AMR, móðurfélag flugfélagsins American Airlines, hefur óskað eftir heimild til greiðslustöðvunar. Heimildin er í samræmi við 11. kafla bandarískra gjaldþrotalaga sem veitir fyrirtækjum í rekstrarvanda gjaldþrotavernd. Ástæðan er sú að hagræðingartilraunir félagsins fengu ekki brautargengi.

Flugfélagið var það umsvifamesta í Bandaríkjunum um nokkurra ára skeið. Yfirtökur á fyrirtækjum í flugrekstri og rekstrarvandi í fjármálakreppunni hefur hins vegar sett mark sitt á félagið og vermir það nú þriðja sætið á lista yfir stærstu flugfélög landsins.

Í beiðni félagsins um greiðslustöðvun kemur fram að skuldir fyrirtækisins nemi 29,6 milljörðum dala á móti 24,7 milljarða dala eignum.

Í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar af vanda AMR kemur fram að félagið hafi reynt til þrautar að koma í veg fyrir greiðslustöðvun allt frá því hryðjuverkin voru framin í Bandaríkjunum 11. september 2001. Viðræður hafa staðið nær sleitulaust yfir við lánardrottna síðan þá, að sögn Bloomberg.

Flugvél American Airlines.
Flugvél American Airlines.