AMR Corp., móðurfélag bandaríska flugfélagsins American Airlines, sem FL Group [ FL ] á 1,1% eignahlut í, tilkynnti í gær að tap félagsins á fjórða ársfjórðungi hefði numið 69 milljónum Bandaríkjadala, eða 28 sentum á hlut, borið saman við 17 milljóna dala hagnað, eða 7 sent á hlut, á sama tíma fyrir ári.

Fram að þessum ársfjórðungi hafði félagið skilað hagnaði sex fjórðunga í röð. Tekjur AMR jukust um 5,3% á tímabilinu og námu samtals 5,68 milljörðum dala. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar um 10% á fjórðungnum, sem má einkum rekja til þess að eldsneytisverð hækkaði um 43% á nýliðnu ári.

FL Group [ FL ] minnkaði hlut sinn í AMR í 1,1% úr 9,1%, að því er fram kemur í tilkynningu frá fjárfestingafélaginu frá 30. nóvember 2007, og innleysti tap.

"Það verður ekki sagt að fjárfesting FL í AMR hafi verið ferð til fjár, eins og raunin varð í lággjaldaflugfélaginu easyJet á sínum tíma," skrifaði greiningardeild Kaupþings á þegar tilkynnt var um téða sölu. "Markaðsvirði eignarhlutarsins nam 31,2 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs en fram kemur að hluturinn hafði fyrir söluna lækkað um 15 milljarða króna á árinu, þar af voru 13 milljarðar gjaldfærðir undir lok síðasta ársfjórðungs. FL Group tekur því á sig um tveggja milljarða króna tap á fjórðungnum."