Hlutabréfaverð AMTD Digital, fjártæknifyrirtækis í Hong Kong, hefur margfaldast frá því að bréfin voru skráð á markað í Bandaríkjunum um miðjan síðasta mánuð. Viðskipti með hlutabréf félagsins hafa ítrekað verið stöðvuð á síðustu dögum. Hlutabréfum AMTD Digital hefur verið líkt við Gamestop-söguna.

Eftir meira en 120% hækkun í gær fór markaðsvirði félagsins yfir 340 milljarða dala, eða yfir 42 þúsund milljörðum króna, og félagið var því um stund verðmætara en 489 af 500 félögum S&P 500 vísitölunnar, samkvæmt frétt Marketwatch. Markaðsvirði AMTD Digital var því orðið meira en hjá Coca-Cola og Bank of America. Til að setja þetta í samhengi þá námu heildartekjur félagsins 25 milljónum dala, eða um 3,4 milljörðum króna, í fyrra.

Svokölluð ADS hlutabréf AMTD Digital eru í vörslu bandarískra banka sem gera fjárfestum vestanhafs kleift að eiga viðskipti með bréf félagsins. Félagið sendi frá sér þakkarbréf til fjárfesta í gær vegna hinnar gífurlegu hækkunar á gengi félagsins.

Hlutabréfaverð félagsins stendur nú í 1.300 dölum eftir 22,6% lækkun í dag en er enn margfalt hærra en 7,8 dala útboðsgengi félagsins. Gengi AMTD Digital hefur því hækkað um 16.667% frá skráningu um miðjan síðasta mánuð.