*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 19. nóvember 2013 17:33

Ánægð með uppgjör VÍS

Forstjóri VÍS segir reksturinn hafa gengið vel. Skráning tryggingafélagsins á markað og innkoma Lífís juku rekstrarkostnað.

Ritstjórn
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir rekstur tryggingafélagsins hafa gengið vel á þriðja ársfjórðunig og vátryggingareksturinn verið talsvert betri en í fyrra.

VÍS hagnaðist um tæpar 950 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi sem var 26% aukning á milli ára. Hagnaðurinn á fyrstu níu mánuðum ársins var 300 milljónum krónum meiri en á sama tíma í fyrra. Þá námu eigin iðgjöld samstæðunnar 11.541 milljónum króna á fyrstu níu mánuði ársins og lækkuðu þau um 166 milljónir frá í fyrra. Á sama tíma lækkuðu eigin tjón um rúmar 250 milljónir króna. Haft er eftir Sigrúnu í uppgjörstilkynningu VÍS að það skýri betri afkomu af vátryggingarekstrinum það sem af er ári í samanburði við síðasta ár. 

Skráning á markað jók kostnað

Þá lækkaði jafnframt rekstrarkostnaður um 55 milljónir króna á milli ára á þriðja ársfjórðungi. Hann nam 2.910 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við 2.828 milljónir í fyrra. Hækkunin skýrist af tilkomu Lífís í samstæðu VÍS og af kostnaði vegna skráningar félagsins á markað.

Þá segir í tilkynningunni að fjárfestingastarfsemi VÍS gekk einnig vel á þriðja ársfjórðungi og námu fjárfestingartekjur samtals 1.083 milljónum króna. Alls námu fjárfestingartekjur félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins 2.457 milljónum króna samanborið við 2.362 milljónir fyrir sama tímabil í fyrra.

Að þessu viðbættu var ávöxtun af skuldabréfasafni félagsins viðunandi á árinu og hlutabréfasafn VÍS skilað ágætri afkomu sem var talsvert umfram OMXI-6. Á móti hefur styrking krónunnar haft neikvæð áhrif á erlendar eignir félagsins það sem af er árinu, að því er haft er eftir Sigrúnu Rögnu í uppgjöri VÍS.