*

föstudagur, 18. september 2020
Innlent 9. apríl 2020 10:19

57% félaga nýtt sér hlutabótaleiðina

Fyrirtæki eru mun ánægðari með aðgerðir ríkisins en sveitarfélaga í efnahagsmálum samkvæmt könnun Félags atvinnurekenda.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Mun meiri ánægja er meðal aðildarfélaga Félaga atvinnurekenda með aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum á síðustu vikum en aðgerðir sveitarfélaganna. Þetta er niðurstaða könnunar sem Félag atvinnurekenda lét gera meðal sinna félagsmanna.

Þá gera félögin ráð fyrir að verða fyrir þungu höggi. Um 80% félagsmanna segja að fyrirtækin verði fyrir tekjufalli á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra. Þriðjungur telur tekjutapið verði meira en 50%. Um 25% fyrirtækjanna hafa sagt upp fólki eftir að heimsfaraldur COVID-19 hófst, 57% hafa nýtt sér hlutabótaleiðina og 20% hafa lækkað starfshlutfall hjá öllu starfsfólki.

Af þeim sem svöruðu spurningunni „Hversu ánægð(ur) ertu með aðgerðir ríkisins (ríkisstjórnar og Alþingis) til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins og aðstoða fyrirtæki?“ sögðust 16% vera mjög ánægð með aðgerðirnar og 48% til viðbótar sögðust ánægð, samtals 64%. Hins vegar sögðust 11% óánægð eða mjög óánægð með aðgerðir ríkisvaldsins.

Þegar sömu spurningu var beint að félagsmönnum um aðgerðum sveitarfélaganna sögðust aðeins 2% svarenda mjög ánægðir, 15% ánægðir, en samtals 43% segjast óánægðir eða mjög óánægðir með aðgerðir sveitarfélaganna.

Aðspurðir í opnu flokki til hvaða nýju aðgerða hægt væri að grípa til sögðu lögðu langflestir fyrirtækjastjórnendur til tímabundna niðurfellingu tryggingagjalds og fasteignaskatts sveitarfélaga á atvinnuhúsnæði og/eða lækkun þessara skatta til frambúðar.

Þrátt fyrir mikla erfiða stöðu telja flestir stjórnendur að þeirra félag komist í gegnum erfiðleikana. 39% stjórnenda telja það mjög líklegt og 49% líklegt, eða samtals 88%. Aðeins 3% telja ólíklegt að fyrirtækið spjari sig.

Þá sögðust 53% svarenda hafa leitað til viðskiptabanka síns vegna erfiðleika af völdum heimsfaraldursins. Af þeim fyrirtækjum sögðust 46% svarenda ánægðir eða mjög ánægðir með viðbrögð bankans, en um fjórðungur sagðist óánægður eða mjög óánægður með þær móttökur sem hann hefði fengið í bankanum.

Hér að neðan er hluti annarra svara í könnuninni:

  • 24% fyrirtækjanna hyggjast sækja um bætur vegna launagreiðslna til starfsmanna í sóttkví.
  • 62% fyrirtækjanna hyggjast nýta sér að fresta greiðslum opinberra gjalda og skatta.
  • 8% félagsmanna hyggjast sækja um brúarlán hjá fjármálastofnun með ríkisábyrgð að hluta.

Könnun FA var netkönnun, gerð dagana 6.-8. apríl. Hún var send til 158 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 75 eða 47,5%.