Bjarni Benediktsson segir að margir þeir atvinnurekendur sem gagnrýni að tryggingagjaldið skuli ekki lækka meira en raun ber vitni þurfi að líta sér nær. Þetta sagði hann í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hann sagði að 0,1 prósent lækkun gjaldsins kosti ríkissjóð einn milljarð króna en til stendur að lækka það um 3,4% á næstu árum.

Bjarni benti aftur á móti á að atvinnurekendur hefðu  hækkað laun langtumfram umsamdar launahækkanir. Þau hefðu hækkað sýnu mest í fjármálageiranum. Atvinnurekendur verði því að spyrja sig hvort kosti meira, þær launahækkanir sem ráðist var í eða atvinnutryggingagjaldið.

Þá kvaðst Bjarni ánægður með að hafa getað lækkað skatta í nýju fjárlagafrumvarpi. Skattar hefðu verið hækkaðir umtalsvert á undanförnum árum.