Ferðamannapúlsinn mældist yfir 84 stigum í október, 84,3 stig, og nóvember, 84,1 stig, af 100 stigum mögulegum og er það hæsta mæling síðan í september 2016 þegar Ferðamannapúlsinn mældist 84,9 stig. Ferðamannapúlsinn mælir heildarupplifun ferðamanna af Íslandsferðinni að því er kemur fram í tilkynningu frá Gallup.

Ferðamannapúlsinn er mældur alþjóðlega en í nóvember var hann hæstur meðal ferðamanna frá Póllandi eða 88,4 stig og næsthæstur meðal bandarískra ferðmanna (85,5 stig). Á hinn endann mældist Ferðamannapúlsinn lægstur meðal ferðamanna frá Írlandi, eða 77,2 stig.

Þegar litið er til undirþátta Ferðamannapúlsins mældust allir þættir hærri í október og nóvember miðað við september síðastliðinn. Sá þáttur sem hefur hækkað mest er gestrisni, sem mældist 2,1 stigum hærri í nóvember heldur en í september. Ferðamenn sem voru á landinu í nóvember upplifðu Íslendinga því gestrisnari heldur en ferðamenn sem voru á landinu í september. Mat ferðamanna á hvort að ferðin hafi verið peninganna virði náði 79,1 stigi í október, sem er hæsta mæling síðan í september 2016.  Sömu sögu má segja af líkum á því að ferðamenn mæli með landinu sem áfangastað, sem mældust 91,2 stig í nóvember, sem einnig er hæsta mæling síðan í september 2016.