„Það er ánægjulegt að einhver hagnaður er af þessu,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri en Seðlabankinn bókfærði um 480 milljóna króna hagnað eftir gjaldeyrisútboð með krónur og evrur í gær. Þetta var eitt stærsta útboð Seðlabankans síðan í júní árið 2011.

Már sagði á vaxtaákvörðunarfundi í Seðlabankanum þar sem hann ræddi um ákvörðun Peningastefnunefndar í vaxtamálum það ekki stefnu Seðlabankans að hámarkað hagnað af viðskiptum sem þessum. Greint var frá því í morgun að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 6%.

„Þetta liggur bara svona núna. Það gæti legið öðruvísi næst,“ sagði hann og lagði áherslu á að ríkissjóður hafi hagnast á viðskiptunum og sé það ekki markmið Seðlabankans að græða á gjaldeyrisútboðunum.