Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði um 0,4% í ágúst. Gildi hagvísisins hefur ekki verið hærra í uppsveiflu síðan 2006. Hagvísirinn bendir til hagvaxtar yfir langtímaleitni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Analytica.

Fram kemur að hækkunin nú skýrist af sömu þáttum og fyrir mánuði síðan. Áfram séu vísbendingar um vöxt innlendrar eftirspurnar og mikil aukning er í komum ferðamanna.

„Eins og sjá má á örum vexti landsframleiðslu á 2. ársfj. (5,2%) þá hefur gengið eftir sá framleiðslukippur sem hagvísirinn hefur gefið vísbendingar um. Sem fyrr eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum. Í undirþáttum hagvísisins er ekki enn að sjá mælanleg áhrif innflutningsbanns Rússa á íslenskar sjávarafurðir,“ segir í tilkynningunni.

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum.