Leiðandi hagvísir Analytica (e. composite leading indicator) hækkaði áfram í janúar nú fimmta mánuðinn í röð. Hagvísirinn bendir til að hagvöxtur aukist á ný á fyrri árshelmingi.

Aðaldrifkraftarnir eru áfram fjölgun ferðamanna og aukning fiskafla. Á móti kemur að minni hugur virðist í neytendum. Þá eru nokkrir áhættuþættir í ytra umhverfi einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum, Úkraínu og Grikklandi og efnahagsástandinu í Rússlandi.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í janúar hækka allir undirþættir (sex) frá fyrra ári, hið sama og í desember. Frá í desember hækka hins vegar fimm af sex undirþáttum.

Hugmyndin að baki vísitölunni er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.