Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í desember fimmta mánuðinn í röð. Eldri gildi voru lítillega endurskoðuð. Hagvísirinn bendir til hagvaxtar yfir langtímaleitni, segir í fréttatilkynningu frá Analytica.

„Þrír af sex undirliðum hækka frá í nóvember en mest áhrif hefur fjölgun ferðamanna. Í öllum tilvikum er leiðrétt fyrir áhrifum árstíðasveiflu og langtímaleitni. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta virðist enn að styrkjast. Áfram eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum,“ er tekið fram.

Hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum og er hlutverk hennar að veita sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagshorfum.

„Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í desember hækka þrír af sex undirþáttum frá fyrra ári. Frá í nóvember hækka einnig þrír af sex undirþáttum,“ segir einnig í tilkynningunni.

Leiðandi hagvísir Analytica hækkar í desember og tekur gildið 102,1. Sú tala á að gefa vísbendingu um framleiðslu sex mánuðum síðar þ.e. í júní 2017. Hagvísirinn tekur gildið 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni.