Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur verður að öllum líkindum næsti framkvæmdastjóri NATO. Fullyrt var í fréttum DR1, danska ríkissjónvarpsins, rétt í þessu að hann tæki við embættinu af Jaap de Hoop Scheffer. Nafn Anders Fogh hefur lengi verið í umræðunni en hingað til hafa Tyrkir einna helst haft fyrirvara á því og mun það vera vegna Múhameðsteikninganna um árið. Þá voru þeir ósáttir við viðbrögð dönsku ríkisstjórnarinnar.

Ætla má að þetta verði ákveðið á leiðtogafundi ríkja Atlantshafsbandalagsins sem haldinn verður 3. og 4. næsta mánaðar og að skiptin fari fram 31. júlí næstkomandi.

Anders Fogh Rasmussen, sem er 56 ára gamall, hefur verið forsætisráðherra Danmerkur frá því í nóvember 2001.