Þó svo að Bretar hafi beitt ákvæði hryðjuverkalaga gegn Íslandi hafa engin vopnuð átök átt sér stað á milli ríkjanna. Það er því ekki hlutverk NATO að skipta sér af deilu ríkjanna.

Þetta sagði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins á blaðamannfundi fyrir stundu en hann er í heimsókn hér á landi í dag. Ísland er fyrsta ríkið sem Anders Fogh heimsækir sem framkvæmdastjóri NATO.

Anders Fogh sagði að honum stæði þó ekki sama um deilur á milli NATO þjóða, í þessu tilfelli á milli Íslands, Breta og Hollendinga. Hann sagðist fylgjast mjög vel með málinu en hins vegar væri um milliríkjadeilu á milli einstakra ríkja að ræða að ræða sem snerust um efnahagsmál.

Anders Fogh sagðist skilja málstað Íslendinga. Hann hefði fylgst vel með málum hér á landi síðustu ár sem forsætisráðherra Danmerkur og vonaðist til þess að deilur milli fyrrnefndra þjóða yrðu leystar sem fyrst.

Aðspurður hvort honum þætti eðlilegt að eitt NATO ríki beitt ákvæði hryðjuverkalaga gegn öðru NATO ríki sagðist Anders Fogh ekki vilja tjá sig meira um málið.