Í Hálf fimm fréttum Kaupþings segir að ástralski dalurinn hafi ekki verið sterkari gagnvart Bandaríkjadal í tæpan aldarfjórðung. ?Andfætlingurinn? fór í fyrradag upp fyrir 90 sent í fyrsta skipti í 23 ár eftir að hafa farið lægst niður í 77 sent í ágúst þegar undirmálskrísan náði hámarki sínu og verulega dró úr vaxtamunarviðskiptum. Sumir sérfræðingar ganga svo langt að spá því að ástralski dollarinn pari Bandaríkjadal á næstu misserum.

Þar segir einnig að UBS í Sviss eigi í viðræðum við Commerzbank um kaup á frönsku dótturfélagi þýska bankans, eignastýringarfyrirtækinu Caisse Centrale de Reescompte. Samkvæmt frétt Reuters gætu kaupin gengið í gegn snemma árs 2008 en kaupverðið er talið liggja á bilinu 43-51 milljarður króna. Commerzbank, sem er meðal annars í eigu FL Group, bauð CCR falt eftir að bankinn seldi breska eignastýringarfyrirtækið Jupiter frá sér.
? Hagnaður Alcoa jókst um 3,4%


Alcoa Inc. hagnaðist um 555 milljónir Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi sem var 3,4% aukning á milli ára. Uppgjörið var rétt undir væntingum markaðsaðila. Aukninguna má þakka söluhagnaði af starfsemi í Kína og hærra verði á málmum. Alcoa er fyrsta bandaríska stórfyrirtækið til að birta uppgjörstölur sínar á fjórðungnum. Gengi á hlutabréfum félagsins lækkaði um 1,5% í Kauphöllinni í New York í dag en bréfin hafa hækkað um 34% á árinu.