Árni Vilhjálmsson, formaður stjórnar HB Granda og fyrrverandi prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, lést í gær. Hann var áttræður.

Árni var fæddur 11. maí árið 1932. Hann lauk stúdentsprófi frá MR árið 1951, prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands þremur árum síðar og stundaði eftir það bæði nám og kennslu við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og síðar við Óslóarháskóla. Hann vann á sjötta áratugnum við hagrannsóknir hjá Framkvæmdabankanum, í viðskiptaráðuneytinu og var stundakennari við Háskóla Íslands. Þá var Árni hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum í Washington. Árið 1961 varð Árni prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Í frétt um andlát Árna í Morgunblaðinu í dag segir að hann hafi auk kennslustarfanna verið umsvifamikill þátttakandi í atvinnulífinu til dauðadags. Hann var m.a. formaður stjórnar Háskólabíós árin 1963 til 1978, sat í bankaráði Landsbanka Íslands árin 1974 til 1988 og í stjórn Verðbréfaþings. Þá var hann stjórnarformaður Kassagerðarinnar, í stjórn Flugleiða og verktakafyrirtækisins Ármannsfells. Hann sat jafnframt í stjórn Hampiðjunnar, Nýherja og Venusar. Hann var formaður stjórnar Hvals frá árinu 1979 og formaður stjórnar Granda frá 1988. Árni var jafnframt skipaður í fjölda nefnda og var heiðursdoktor frá viðskipta- og hagfræðideild Háskólans og heiðursfélagi í Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga.