Páll Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, lést þann 22. apríl sl. á 70. aldursári.

Páll fæddist á Akureyri 4. júní 1945. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1965, BA-prófi frá Université Catholique de Louvain í Belgíu 1967 og doktorspróf frá sama skóla 1973.

Í frétt um andlát Páls í Morgunblaðinu segir að hann hafi að auki verið formaður Félags háskólakennara 1983-84. verið einn af stofnendum Norrænu heimspekistofnunarinnar, formaður stjórnar Menningarsjóðs útvarpsstöðva 1986-90 og í vísindasiðanefnd Læknafélags Íslands 1986-95. Þá var hann formaður stjórnar Siðfræðistofnunar frá stofnun hennar 1989 og fram til 1997.

Á árunum 1997 til 2001 var Páll formaður stjórnar Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000. Páll sat í háskólaráði Háskólans í Lúxemborg frá 2004 til 2009. Hann sinnti umfangsmiklum nefndarstörfum vegna úttekta á háskólum á vegum Samtaka evrópskra háskóla (EUA) frá 2005 og hefur verið formaður alþjóðlegrar nefndar um ytra mat á Háskólanum í Lúxemborg frá 2007.