Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, lést á sjúkrahúsi í Þýskalandi í gær. Þórður var 59 ára gamall.

Þórður greindist með krabbamein í apríl sl. Hann var á leið til Austurríkis í frí sl. helgi með fjölskyldu sinni þegar hann veiktist skyndilega. Var  hann þá lagður inn á sjúkrahús í Friedrichshafen í Þýskalandi þar sem hann lést í gær.

Þórður gegndi starfi forstjóra Kauphallarinnar frá árinu 2002. Áður var Þórður forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar í 15 ár en þá gegndi hann einnig stöðu ráðuneytisstjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu frá apríl 1998 til september 1999, í leyfi frá Þjóðhagsstofnun.

Þórður gegndi jafnframt stöðu efnahagsráðgjafa forsætisráðherra í stjórnartíð Gunnars Thoroddsen og Steingríms Hermannssonar.

Þórður var kvæntur Ragnheiði Agnarsdóttur og áttu þau saman eina dóttur. Auk þess á Ragnheiður son úr fyrra sambandi.

Þórður lætur einnig eftir sig fjögur uppkomin börn og 11 barnabörn.