Meirihluti forsætisnefndar Alþingis vill að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar verði birt. Nefndin hefur enn ekki afgreitt endurupptekna beiðni Viðskiptablaðsins, síðan í febrúar 2021, um aðgang að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols. Þegar Birgir Ármannsson hefur verið inntur eftir því hvenær nefndin hyggst afgreiða málið hefur hann sagt að skiptar skoðanir séu um það innan nefndarinnar.

Mér finnst að það eigi að birta greinargerðina og það er búið að taka ákvörðun um það.

Viðskiptablaðið hafði samband við alla aðra nefndarmenn forsætisnefndar í vikunni, sem voru einróma um að birta ætti greinargerðina.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, kvaðst þó hafa skilning á því að þetta væri lögfræðilegt álitaefni þar sem þetta væri vinnuskjal, en hún hefði talið að birta ætti greinargerðina. Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna sagði afstöðu sína vera alveg skýra. „Mér finnst að það eigi að birta greinargerðina og það er búið að taka ákvörðun um það,“ sagði Jódís. Þá sagði Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að hún hefði verið alveg skýr með að hún sæi ekkert því til fyrirstöðu að greinargerðin yrði birt. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði fulltrúa flokksins í forsætisnefnd á þessu kjörtímabili og því síðasta alltaf hafa verið á þeirri skoðun að birta ætti greinargerð Sigurðar Þórðarsonar. „Greinargerðin var afhent Alþingi og þar með getur þetta ekki verið eitthvað leyniplagg,“ sagði Oddný. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, telja einnig bæði að birta eigi greinargerðina.

Það virðist því vera að andstaðan við að forsætisnefnd afhendi Viðskiptablaðinu skjalið sé einungis hjá forseta Alþingis. Í því ljósi er áhugavert að skoða 10. gr. laga um þingsköp þar sem segir að forseti skeri úr ef ágreiningur verður í nefndinni. Aftur á móti situr forseti Alþingis í skjóli meirihluta þingmanna og því alls óvíst hvort hann færi gegn vilja meirihluta nefndarmanna.

Nefndarmennirnir Ásthildur Lóa, Andrés Ingi og Oddný ásamt Bergþór Ólasyni, sem er þingmaður Miðflokksins og áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd, bókuðu um málið á síðasta fundi nefndarinnar. Fyrir utan Birgir Ármannsson voru aðrir nefndarmenn fjarverandi á fundinum og því óvíst hvort þeir hefðu sett nafn sitt við bókunina, sem hljóðaði svo:

Undirrituð lýsa yfir furðu og áhyggjum á þeim töfum sem hafa verið á afgreiðslu þessa máls. Við minnum á að forsætisnefnd samþykkti á fundi 4. apríl 2022 að veita aðgang að greinargerðinni enda lá fyrir ítarlegt og vandað lögfræðiálit sem nefndin aflaði þar sem færð voru góð og gild rök fyrir því að ekkert stæði í vegi fyrir því að veita almenningi aðgang að þessum upplýsingum. Til að snúa við þeirri ákvörðun nefndarinnar þarf verulega sterk rök sem ekki hafa komið fram. Við lýsum því yfir eindregnum mótmælum gegn þeim farvegi sem málið hefur verið sett í og förum fram á að skýrsla setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol verði birt án tafar.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag.