Giulio Andreotti, einn af þekktustu forsætisráðherrum Ítalíu síðari ár, lést á heimili sínu í Róm í dag. Hann var 94 ára. Breska ríkisútvarpið (BBC) segir á vef sínum um Andreotti að hann hafi átt við veikindi að stríða síðustu ári.

Andreotti var ráðherra í ríkisstjórn á Ítalíu 23 sinnum á árunum 1972 til 1992. Þar af var hann forsætisráðherra sjö sinnum, fimm sinnum utanríkisráðherra og í átta skipti ráðherra varnarmála. Andreotti var formaður flokks Kristilegra demókrata sem var ráðandi í ítölskum stjórnmálum um árabil. BBC bendir á að síðustu árin hafi hann verið bendlaður við ýmislegt misjafnt, svo sem spillingu og tengsl við mafíuna.

BBC hefur eftir Sivio Berlusconi, sem jafnframt var forsætisráðherra á Ítalíu, að þeir Andreotti eigi það sameiginlegt að vinstri menn hafi svert ímynd þeirra og réttarkerfið verið þeim óvinveitt.