Andrés B. Sigurðsson, sem var framkvæmdastjóri Ormsson í 14 ár eða fram til miðs árs 2007,hefur nú aftur sest í stól framkvæmdastjóra. Gengið var frá kaupum á öllu hlutafé í Bræðrunum Ormsson í október s.l.

Kaupendur eru Skúli Karlsson, Andrés B. Sigurðsson og Einar Þór Magnússon. Í frétt á heimasíðu félagsins kemur fram að nýjir eigendur hafa allir tengst rekstri félagsins á síðastliðnum árum en Skúli Karlsson sem er stjórnarformaður félagsins er barnabarn stofnanda Bræðranna Ormsson sem var í eigu fjölskyldu hans fram til loka árs 2004. Skúli á og rekur Storm sem er innflytjandi Polaris vélsleða og hjóla á Íslandi. Einar Þór Magnússon var fjármálastjóri félagsins árin 2003 – 2007.

Fyrri eigendur Gunnar Örn Kristjánsson og Sigurður Sigfússon hafa þegar látið af störfum hjá félaginu og hafa síðan í október einbeitt sér að eigin fjárfestingum sem að mestu leiti eru erlendis.

Rekstur Ormsson hefur tekið talsverðum breytingum á undanförnum árum. Ýmsar einingar rekstrarins hafa verið seldar og sjónum beint enn frekar að heimilistækjamarkaði. Í dag rekur fyrirtækið 3 verslanir á höfuðborgarsvæðinu: Í Lágmúla 8 er heimilistækjadeildin og HTH innréttingarnar. Á einum stað er því hægt að sameina vangaveltur um innréttingar, innbyggingartæki og önnur eldhústæki. Í Síðumúla 9 eru hljómtæki, skrifstofutækin og skrifstofur fyrirtækisins og í Smáralind er svo stórverslun Ormsson, með heimilstæki, hljómtæki og ósamsettar  HTH innréttingar. Auk þess er Ormsson á Furuvöllum 5, Akureyri og í Hafnargötu 25, Reykjanesbæ