Andrés Helgi Hallgrímsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Omnis, þetta staðfesti hann í samtali við Viðskiptablaðið. Eggert Herbertsson lætur af starfi framkvæmdastjóra, en hann hefur gengt starfinu í níu ár. Andrés Helgi mun hefja störf í september. Omnis er með starfsemi á Akranesi, Borgarnesi, Reykjavík og Reykjanesbæ.

Fram kemur í frétt Skessuhorns að Andrés er fæddur árið 1967, hann ólst upp á Akranesi og útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Vesturlands árið 1987. Hann flutti síðan til Reykjavíkur þar sem hann nam viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur sótt sér víðtæka reynslu og verið fjármálastjóri og framkvæmdastjóri hjá ýmsum fyrirtækjum. Hann vann lengi sem framkvæmdstjóri Íslandsmarkaðar sem rak uppboðskerfi fyrir fiskmarkaðina, en fór þaðan eftir fimm ára starf árið 2000. Hann vann einnig um tíma sem fjármálastjóri Skyggnis og sem framkvæmdastjóri A4. Núna síðast var hann framkvæmdastjóri Cintamani ehf.

Andrés Helgi er giftur Snædísi Kristinsdóttur og eiga þau saman þrjú börn.