*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Fólk 27. nóvember 2019 15:10

Andrés Ingi segir sig úr þingflokki VG

Annar þingmannanna tveggja sem ekki studdi meirihlutann ætlar að sitja sem óháður. Engin áhrif á 5 manna meirihlutann.

Ritstjórn
Úr sal Alþingis. Andrés Ingi Jónsson mun sitja sem óháður þingmaður út kjörtímabilið.
Haraldur Guðjónsson

Þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson sem kjörinn var á þing fyrir Vinstri græna hefur sagt sig úr þingflokknum og hyggst starfa sem óháður þingmaður út kjörtímabilið að því er RÚV segist hafa eftir öruggum heimildum.

Bæði Andrés Ingi og Rósa Björk Brynjólfsdóttir hafa verið í þingflokki VG þrátt fyrir að hafa ekki stutt stjórnarsáttmála flokksins við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Því ætti þingmeirihlutinn ekki að breytast vegna þessa, en Rúv segir að eftir úrsögnina hafi ríkisstjórnarflokkarnir 34 þingmenn á bakvið sig.

Vinstri græn fengu 11 þingmenn í kosningunum 2017, og bættu einum þingmann við sig, en Sjálfstæðismenn sem misstu fimm fengu 16 meðan Framsóknarflokkurinn hélt sínum 8 þingmönnum.

Samanlagt gerir það 36 þingmenn, en eins og áður segir hafa tveir þingmenn ekki stutt ríkisstjórnarmeirihlutann og er hann því með fimm manna meirihluta gegn 29 þingmönnum minnihlutans, þar af nú einum þingmanni VG auk Andrésar Inga sem nú situr sem óháður.

Hulda Hólmkelsdóttir upplýsingafulltrúi VG staðfesti fréttina í skeyti til fjölmiðla rétt í þessu þar sem segir: „Þingflokkur Vinstri grænna þakkar Andrési Inga Jónssyni samstarfið undanfarin ár. Andrés Ingi upplýsti þingflokkinn í dag um þá ákvörðun sína um að segja sig úr þingflokknum.“

Andrés Ingi var aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur þegar hún var umhverfisráðherra, árin 2011 til 2013.