Félagsbústaðir hafa ráðið tvo nýja starfsmenn. Um er að ræða þá Andrés Ívarsson, sem hefur verið ráðinn verkefnisstjóri fasteignaþróunar og fasteignaviðskipta, og Kristinn Karel Jóhannsson, sem var ráðinn sviðsstjóri fjármálasviðs. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Andrés starfaði hjá Byr á árunum 2007-2011. Fyrst sem viðskiptastjóri fyrirtækja og síðar sem sérfræðingur í fjárstýringu. Við sameiningu Byrs og íslandsbanka 2011 starfaði Andrés sem sérfræðingur í fjárstýringu til ársins 2014. Á árunum 2014-19 starfaði Andrés sem sjóðsstjóri hjá ÍV sjóðum.

Hann er með Mastersgráðu í alþjóðlegum fjármálum og bankastarfsemi frá Háskólanum í Reykjavík og próf í verðbréfaviðskiptum frá sama skóla. Auk þess er hann menntaður húsasmiður.

Kristinn Karel Jóhannsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri fjármálasviðs Félagsbústaða. Kristinn starfaði áður sem sérfræðingur í fjárstýringu á  fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurbogar. Kristinn er með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands og hefur mikla og góða reynslu á því sviði. Auk þess er hann með próf í verðbréfaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík.

„Félagsbústaðir eru stærsta þjónustufyrirtæki landsins á leigumarkaði, á og leigir út hátt í 3000 íbúðir í Reykjavík. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að árlega fjölgi íbúum um og yfir 100 og að þær dreifist sem jafnast um borgina til að tryggja félagslegan margbreytileika og fjölbreytni í hverfum borgarinnar,“ segir í fréttatilkynningu Félagsbústaða.