Páskarnir eru handan við hornið. Hvert á að fara nú þegar margir frídagar bíða okkar vinnuþjökuðu þjóðar?

Unnur Eggertsdóttir
Unnur Eggertsdóttir

Ekkert prófþunglyndi og ekkert páskaegg

„Ég hef yfirleitt alltaf verið í próflestrarþunglyndi um páskana svo það verður æðislegt að sleppa við það þetta árið. Því sem ég ætla líka að sleppa þetta árið er páskaeggið. Þetta er ekki að fara að gera mér gott frekar en hin árin. Svo eru mamma og pabbi orðin svo góð í að fela þetta að við systkinin erum heilu vikurnar að leita að þessu og þetta er orðið hálfmyglað þegar við loksins finnum þetta. Litli bróðir minn reynir örugglega að draga okkur norður á Hlíðarfjall á skíði en ég nenni ekki að brotna svo ég vil frekar halda mig í bænum og fara í sund og kannski kíkja á Esjuna. Kannski,” segir Unnur Eggertsdóttir söngkona.

Andrés Jónsson.
Andrés Jónsson.

Ætla að heimsækja ríka frændann, Noreg

„Ég er að fara til Noregs í nokkra daga yfir páskana. Ég fer meðal annars upp í fjallakofa með vinafólki mínu í „hytte” eins og Norðmenn kalla það. Kofinn stendur við lítið stöðuvatn í fjöllunum, ekki ýkja langt frá Ósló, en á þennan stað hef ég komið reglulega bæði að vetri og sumri alveg frá því að ég var barn. Það eru nokkur ár síðan ég kom í kofann síðast, þannig að ég hlakka mikið til. Hvað við gerum okkur til dundurs fer væntanlega töluvert eftir veðri. Líklega verða þetta gönguferðir á daginn og tekið í spil á kvöldin. Ég er almennt mikill aðdáandi Norðmanna og skil ekki hvað Íslendingar eru oft að hnýta í þá. Þetta eru nánustu ættingjar okkar og þeir bókstaflega dýrka Íslendinga og dá. Það er líka ágætt að eiga þennan ríkan frænda að ef í harðbakkann slær á Íslandi,” segir Andrés Jónssson almannatengill.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.