Það liggur í loftinu að það þarf að endurnýja forystuna. Þeir sem koma til greina meta það hins vegar sem svo að rétti tíminn til að skipta sé frekar á landsfundi í aðdraganda næstu kosninga.

Þetta segir Andrés Jónsson, almannatengill og fyrrverandi formaður Ungra jafnaðarmanna á bloggi sínu en sem kunnugt er fer landsfundur Samfylkingarinnar fram núna um helgina.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, er ein í framboði til formanns og þá er Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar og formaður borgarráðs, einn í framboði til varaformanns. Á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar hafði hann betur gegn Árna Pál Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, í baráttunni um varaformannsstólinn.

Andrés segir að ekkert útlit sé fyrir að kosið verði milli fólks í æðstu embætti á landsfundinum um helgina.

Þá vísar Andrés í könnun Viðskiptablaðsins í gær þar sem kannaður var stuðningur við fimm aðila til formennsku í Samfylkingunni. Þar fékk Guðbjartur Hannesson mjög góða niðurstöðu. Þegar spurt var á meðal kjósenda Samfylkingarinnar nýtur Jóhanna aðeins 36% fylgis og Guðbjartur 28%. Þegar litið er til svara allra þátttakenda í könnunni nýtur Guðbjartur hinsvegar tæplega 39% fylgis en Jóhanna aðeins 15% fylgis.

„Jóhanna Sigurðardóttir fær ekkert sérstaka útkomu í þessari könnun,“ segir Andrés.

„Þó verður að taka tillit til þess að flokksmenn Samfylkingarinnar eru að upplagi ekkert sérstaklega foringjahollir. Það var dálítill urgur í flokknum í kjölfar þess að í ljós kom að ekkert myndi gerast í forystumálunum í haust. [...] Það er ljóst að kapphlaupið um formannsstólinn hefst strax eftir að þessum landsfundi lýkur. Það er eitthvað að gerast í Samfylkingunni. Það er þó erfitt að festa hendi á það nákvæmlega hvað það er ennþá.“

Sjá blogg Andrésar í heild sinni.

Haustráðstefna Skýrr 2010
Haustráðstefna Skýrr 2010
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Andrés Jónsson, fyrrv. formaður Ungra jafnaðarmanna.