Andri Árnason
Andri Árnason
© vb.is (vb.is)

Andri Árnason hæstaréttarlögmaður hefur tekið að sér að verja Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdómi. Andri Árnason hefur ekki verið mjög áberandi þrátt fyrir umsvifamikil lögmannsstörf og vill hann halda sig sem lengst frá sviðsljósinu.

Andri er mikils metinn lögmaður og er jafnvel talað um hann sem hæfasta lögmann landsins og þykir hann sérstaklega traustur. Kallaður til á ögurstundu Andri hefur verið kallaður til nokkrum sinnum á undanförnum árum þegar mikið hefur þótt liggja við og ber helst að nefna þegar Andri var kallaður heim úr fríi til að yfirfara neyðarlögin haustið 2008. Tekist hefur verið á um neyðarlögin fyrir dómstólum en þau virðast vera skotheld miðað við niðurstöður dómstóla.

Andri var einnig kallaður til af stjórn Fjármálaeftirlitsins þegar meta átti hæfi Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Hann var einnig formaður fjárhaldsstjórnar Sveitarfélags Álftaness til að taka á greiðslu- og skuldavanda sveitarfélagsins árið 2010. Andri sat einnig í slitastjórn Sparisjóðabanka Íslands.

Góður kennari

Andri er fæddur 12. desember 1957 og lauk hann cand. jur. prófi árið 1982. Hann varð svo héraðsdómslögmaður árið 1984 og hæstaréttarlögmaður 1993. Andri lauk Postgraduate- prófi í samkeppnisrétti frá King´s College í London árið 2004. Andri hefur starfað sem lögmaður í Reykjavík frá 1984. Hann hefur miðlað þekkingu sinni til nemenda bæði Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík og hefur verið aðjúnkt við lagadeild HR frá 2005. Andri þykir góður kennari, vel undirbúinn og koma námsefninu vel til skila.

Einn af eigendum Juris

Andri er einn af eigendum lögmannsstofunnar Juris en hann stofnaði hana ásamt nokkrum öðrum lögmönnum árið 2006. Andri var formaður laganefndar Lögmannafélags Íslands árið 1992 til 2000 og sat í stjórn lögmannafélagsins 1993 til 1996. Andri sat í áfrýjunarnefnd samkeppnismála frá árinu 1994 til 1995. Hann hefur einnig sinnt störfum á borð við formennsku kærunefndar jafnréttismála og formennsku í stjórn Gerðardóms Viðskiptaráðs Íslands frá 2005.

Aths. vegna neyðarlaga

Í grein í Viðskiptablaðinu hinn 19. maí sl. er sagt að leitað hafi verið til mín til að semja og yfirfara neyðarlögin haustið 2008.  Rétt er að þess var óskað að ég kæmi skoðun og vinnu við tiltekið atriði í frumvarpsdrögunum, sem þá voru í lokavinnslu. Ég á hins vegar engan heiður af samningu neyðarlagafrumvarpsins sem slíks og tel því mér bæði rétt og skylt að koma ofangreindu á framfæri.

Andri Árnason