Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Travelade, hefur verið ráðinn stafrænn leiðtogi í fjármála- og efnhagsráðuneytinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu. Starfið var auglýst í nóvember.

Andri er menntaður rafmagns- og tölvuverkfræðingur frá Háskóla Íslands og er með MBA gráðu frá Stanford. Þar lagði hann áherslu á frumkvöðlafræði, tækni og leiðtogafærni. Hann var einn stofnendum Icelandic Startup og starfað með fjölda sprotafyrirtækja í gegnum tíðina. Þá starfaði hann sem þróunarstjóri LinkdIn. Frá 2017 hefur hann stýrt Travelade en hann hefur látið af störfum þar.

„Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og hefur ríkisstjórnin ákveðið að stafræn samskipti verði meginsamskiptaleið almennings við hið opinbera fyrir lok ársins 2020. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sett á fót verkefnastofu um stafrænt Ísland til að tryggja framgang markmiða ríkisstjórnarinnar. Verkefnastofan vinnur með ráðuneytum, stofnunum og öðrum opinberum aðilum að því að efla stafræna þjónustu við almenning og tryggja þannig skýr, einföld og hraðvirk samskipti,“ segir í tilkynningunni.