Andri Árnason, framvæmdastjóri Miðlunar, segir að þær breytingar sem Póst- og fjarskiptastofnun kynnti í gær, um breytt fyrirkomulag á miðlun símaskrárupplýsinga , skipti miklu máli fyrir fyrirtæki sem sinna upplýsingaþjónustu með símanúmer. Í tilkynningu frá Miðlun segir að með breytingunni sé verið að binda endi á einokun Já upplýsingaveitna á þessum markaði. Nú sé það á forræði fjarskiptafyrirtækjanna sjálfra að annast gagnagrunn um símanúmer sinna viðskiptavina, sem þau geta svo látið þriðja aðila í té sem veitir almenningi upplýsingarnar.

Andri segir að með því að aflétta alþjónustukvöðinni af Já sé verið að opna fyrir samkeppni á markaðinum. Áður hafi enginn getað veitt Já samkeppni vegna þess að fyrirtækið hafi haft það hlutverk í krafti alþjónustukvaðarinnar að halda utan um heildstæðan gagnagrunn símanúmera á Íslandi. Vegna stöðu og arfleiðar Já hafi þeim sjálfrafa verið úthlutað mikilvægum upplýsingum um símanúmer sem önnur fyrirtæki hafi ekki getað keppt við.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að ekki sé um miklar breytingar að ræða. Nú sé einungis verið að skilgreina með hvaða hætti fjarskiptafyrirtæki skuli afhenda upplýsingar til fyrirtækja sem starfrækja símaskrárþjónustu. Andri segir hins vegar að breytingarnar séu umfangsmiklar. Nú sé loksins komin niðurstaða í það hvernig þessi markaður eigi að vera á Íslandi. Það sé eitthvað sem löngu hafi verið gert í löndunum í kringum okkur.

Mikil verðmæti fylgja 118

Sigríður Margrét sagði í gær að það hafi ekki mikil áhrif á starfsemi fyrirtækisins að númerið 118 hafi verið afturkallað. Hún sagði jafnframt að Já hafi átt frumkvæði að því að skila númerinu inn fyrr en til stóð. Andri vísar þessu á bug. Hann segir þvert á móti að Já hafi verið skikkað til að skila inn númerinu en fyrirtækið hafi barist fyrir því að fá að halda því lengur, enda séu miklir hagsmunir í húfi. „118 er í eigu ríkisins, þarna koma inn hundruð þúsunda símtala í hverjum mánuði, hvert símtal kostar 208 krónur og þetta eru engin smá verðmæti sem verið er að tala um.“ Segir Andri og bætir við að Miðlun hyggist nú fara í fulla samkeppni við Já á þessu sviði.