Í byrjun árs 2008 varð eitt stærsta fyrirtæki landsins á sínu sviði til þegar Ölgerð­in Egill Skallagrímsson og heildverslunin Danól sam­einuðust en Ölgerðin hafði nokkrum árum áður keypt Danól af fyrri eigendum. Þetta risavaxna fyrirtæki, sem veltir um 17 millj­örðum króna á ársgrundvelli, gekk þó í gegnum nokkra erfiðleika í kjölfar efnahagshrunsins haust­ið 2008 þegar erlend skuldastaða þess magnaðist upp eins og hjá öðrum sem voru með erlend lán á efnahagsreikningi sínum. Þrátt fyrir að félagið hafi staðið í skilum þá var eigið fé þess neikvætt á þessu tíma.

„Þetta var þrautaganga. Fyrirtækið stóð alltaf í skilum og greiddi af lánum sínum en eigið fé var nei­kvætt á þessum tíma og skulda­staðan hefði orðið óbærileg með tímanum,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, að­spurður um aðdragandann að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Hann hafði fram að því verið einn af stærstu eigend­um Ölgerðarinnar en hann ásamt fleiri stjórnendum Ölgerðarinnar keyptu félagið haustið 2007 í sam­starfi við Kaupþing.

Það liggur beinast við að spyrja Andra Þór hvort félagið hafi verið komið á þann stað að vera á leið í þrot. Andri Þór svarar því neitandi og segir að aldrei hafi verið hætta á því enda hafi reksturinn alltaf staðið undir afborgunum af lánum. Þannig hafi rekstrar­reikningurinn verið góður síðustu ár og áhrifin af hruninu hafi í raun ekki haft mikil áhrif á reksturinn sjálfan.

Andri Þór er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast það og blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.