*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 13. desember 2018 07:04

Andri Már ósáttur við Arion banka

Andri Már Ingólfsson segir að Primera Air hefði lifað af hefði það fengið brúarlán frá Arion banka líkt og til hafi staðið.

Ingvar Haraldsson
Andri Már Ingólfsson er ósáttur við Arion banka.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Andri Már Ingólfsson, eigandi Travelco, áður Primera Travel, segir að Primera Air væri enn í rekstri hefði Arion banki verið reiðubúinn til að veita félaginu brúarfjármögnun, líkt og staðið hafði til, þar til skuldabréfaútboði félagsins væri lokið. „Það er ljóst að ef sú fjármögnun hefði komið, væri Primera Air enn í rekstri,“ segir Andri Már.

Andri Már greindi frá því í viðtölum við Fréttablaðið og Morgunblaðið 12. september að Primera Air væri langt komið með að ljúka 40 milljóna evra skuldabréfaútboði, ríflega fimm milljarða króna brúarfjármögnun þar til flugfélagið gæti innleyst söluhagnað af nýjum Boeing flugvélum næsta vor.

„Það er ljóst að ef rekstur Primera Air myndi ekki halda áfram eftir helgina, þá myndu allar ferðaskrifstofur félagins loka einnig, enda með öll flug hjá Primera Air,“ segir Andri Már.

Bankinn vildi nýtt félag

Mánudaginn 1. október var greint frá því að Primera Air væri á leið í þrot. Andri segir að þá hafi endanlega komið í ljós að Arion banki myndi ekki styðja frekar við rekstur flugfélagsins. Þá hafi bankinn þrýst á um að ferðaskrifstofur Primera Travel Group yrðu færðar í nýtt félag. „Þegar ljóst var á mánudag, að bankinn myndi ekki styðja við Primera Air, þá var óskað eftir gjaldþrotaskiptum, og bankinn lagði gríðarlegan þrýsting á að færa eignir yfir í nýtt félag þann sama dag, og var það klárað seint um nóttina,“ segir Andri Már. Í kjölfarið voru ferðaskrifstofur Primera samstæðurnar færðar yfir í félagið Travelco.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.