Andri Guðmundsson verður framkvæmdastjóri nýrrar fyrirtækjaráðgjafar Fossa en hann stýrir nú starfsstöð félagsins í Stokkhólmi. Andri var forstjóri H.F. Verðbréfa áður en hann settist í stjórn Fossa og í framhaldinu leiddi uppbyggingu félagsins í Svíþjóð.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun fá Fossar markaðir starfsleyfi fyrir fyrirtækjaráðgjöf . Fjármálaeftirlitið hefur veitt Fossum mörkuðum starfsleyfi til að bjóða upp á fyrirtækjaráðgjöf til viðbótar við aðra starfsemi. Leyfið gerir Fossum mörkuðum kleift að sinna alhliða fjármagnsþörfum viðskiptavina sinna allt frá hluta- og skuldabréfaútgáfum yfir í kaup og sölu fyrirtækja, samruna og yfirtökur.

Auk þess að Andri tekur við framkvæmdastjórn fyrirtækjaráðgjafarinnar, hefur Óttarr Örn Helgason tekið til starfa við miðlun hlutabréfa og Ólafur Ragnar Garðarsson verið ráðinn nýr inn til fyrirtæksins.

Óttar Örn Helgason hefur áralanga reynslu af fjármálamörkuðum og starfað í fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans, sem sjóðsstjóri lífeyrissjóða í eignastýringu og við gjaldeyrismiðlun hjá Íslandsbanka á árum áður.

Ólafur Ragnar Garðarson er með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann stofnaði nýsköpunarfyrirtækið Angling iQ og starfaði þar sem framkvæmdastjóri auk þess að sjá um hugbúnaðarþróun og fjármögnun fyrirtækisins.

Þá hefur Ásgeir Kröyer verið ráðinn til Fossa og mun hafa aðsetur í Stokkhólmi. Áður en Ásgeir gekk til liðs við Fossa markaði starfaði hann í átta ár hjá fyrirtækjaráðgjöf Arion banka og þar áður hjá einkabankaþjónustu Glitnis. Hann er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

Skapar aukin tækifæri

„Stofnun fyrirtækjaráðgjafar Fossa markaða eru viðbrögð við óskum frá viðskiptavinum okkar sem hafa í auknum mæli beðið okkur um að sinna ráðgjöf og umsjón með verkefnum á þessu sviði.“ segir Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar.

„Með þroska og þróun hlutabréfamarkaðarins á Íslandi verður þörfin fyrir þjónustu fyrirtækjaráðgjafar meiri sem endurspeglast í víðtækari starfsemi Fossa.“

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, segir fyrirtækið betur í stakk búið til að takast á við fleiri verkefni með stofnun fyrirtækjaráðgjafar og eflingu starfsmannahópsins. „Með auknum umsvifum félagsins hér á landi og á skrifstofum okkar í Stokkhólmi og London skapast aukin tækifæri fyrir viðskiptavini félagsins,“ segir Haraldur.

„Því er mikilvægt að fá inn í teymið öfluga og reynslumikla starfsmenn til að sinna þessum verkefnum og taka þátt í mótun þjónustuframboðs Fossa viðskiptavinum til handa.“