*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 8. nóvember 2016 10:15

Andri og Hlöðver stofna Travelade

Andri Heiðar Kristinsson, fyrrum þróunarstjóri hjá LinkedIn, og Hlöðver Þór Árnason, fyrrum tæknistjóri hjá Já.is hafa stofnað nýtt sprotafyrirtæki, Travelade.

Ritstjórn
Hlöðver Þór Árnason, annar af stofnendum Travelade.
Aðsend mynd

Andri Heiðar Kristinsson, fyrrum þróunarstjóri hjá LinkedIn, og Hlöðver Þór Árnason, fyrrum tæknistjóri hjá Já.is, hafa tekið höndum saman og stofnað nýtt sprotafyrirtæki, Travelade.

Travelade er samfélags- og upplýsingavefur (e. Social network) um ferðalög sem mun bjóða notendum upp á sérsniðnar og persónulegar upplýsingar um upplifanir á ferðalögum. Í upphafi er áherslan eingöngu á góð blogg og greinar um ferðalög á Íslandi - sem er tilraunamarkaður fyrirtækisins - en áætlanir gera ráð fyrir að bæta hratt við nýjum mörkuðum, segir í tilkynningu.

Í tilkynningunni er haft eftir Andra og Hlöðveri að þeir þekkja það af eigin reynslu - og viðtölum við fjölmarga væntanlega notendur - að það er oft merkilega erfitt að finna upplýsingar um ferðalög á vefnum, og þá sérstaklega hvað hægt er að gera í nýju landi eða borg.

Andri Heiðar Kristinsson, annar af stofnendum Travelade.

Breyta því hvernig notendur finna afþreyingu og upplifun

„Ef þú leitar að frasa á borð við “What to do in Barcelona” kemur upp aragrúi af misgóðum upplýsingasíðum og það tekur langan tíma að kafa í gegnum allar niðurstöður til að finna það sem viðkomandi er að leita að. Á svipaðan hátt og AirBnB hefur umbreytt því hvernig hægt er að finna gistingu á ferðalögum, ætlum við hjá Travelade að gera okkar besta til að breyta því hvernig notendur finna afþreyingu og upplifun sem er sérsniðin að þeirra þörfum sama hver áfangastaðurinn er.

Þrátt fyrir að ferðabransinn í heiminum sé stór og samkeppnin hörð, stefnum við óhræddir á að takast á við risana í þessum geira á borð við TripAdvisor og Lonely Planet. Við teljum að þessi og fleiri fyrirtæki séu að verða eftirá þegar kemur að góðu notendaviðmóti og notkun nýrrar tækni á borð við gervigreindar til að persónugera upplýsingar, og núna sé því góður tími til að stofna nýtt alþjóðlegt vörumerki í ferðageiranum,” er haft eftir þeim.

Hverjir eru þeir?

Andri Heiðar Kristinsson hefur undanfarin þrjú ár starfað sem þróunarsjóri hjá LinkedIn í San Francisco, þar sem hann leiddi um 70 manna teymi og stýrði þróun hjá fréttaveitunni (e. newsfeed) og forsíðu Linkedin.com. Áður en Andri fluttist til Bandaríkjanna var hann stofnandi og framkvæmdastjóri Icelandic Startups (áður nefnt Innovit). Andri er með MBA gráðu frá Stanford Háskóla og BSc. í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands.

Hlöðver Þór Árnason hefur undanfarin sjö ár verið tæknistjóri hjá Já þar sem hann leiddi þróun og uppbyggingu á tæknilausnum fyrirtækisins, s.s. vefnum ja.is, kortalausnum, auglýsingavörum og farsímalausnum svo fátt eitt sé nefnt. Áður en Hlöðver gekk til liðs við Já, var hann um tíma hjá Miracle og þar áður Oz Communications, þar sem hann vann samhliða námi. Hlöðver er með B.Sc. í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.