Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, og Októ Einarsson stjórnarformaður greiddu út 590 milljónir króna úr OA eignarhaldsfélagi, sem heldur utan um hlut þeirra í Ölgerðinni, með lækkun hlutafjár.

Útgreiðslan kemur í kjölfar sölu þeirra á 10% hlut í Ölgerðinni til Sindrandi, sem er í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, sem átti fyrir 4% hlut í fyrirtækinu. Í ársreikningi OA kemur fram að andvirði sölunnar hafi að mestu verið nýtt til að greiða upp 850 milljóna króna lán sem gjaldfellur síðar á árinu.

OA var fyrir söluna stærsti hluthafi Ölgerðarinnar með 26,1% hlut en er nú komið niður í 16,1%. Framtakssjóðirnir Horn III og Akur eru nú orðnir stærstu hluthafar Ölgerðarinnar með 25,1% og 18,2% hlut.

Hagnaður Ölgerðarinnar nam 729 milljónum króna á síðasta rekstrarári, sem miðast við mars 2020 til loka febrúar 2021. Félagið hagnaðist um 578 milljónir árið áður. Vörusala félagsins jókst um 0,8% á milli ára og nam 26,2 milljörðum króna. Bókfært eigið fé nam 6,2 milljörðum króna í lok febrúar, skuldir voru 14,3 milljarðar og eiginfjárhlutfallið því 30%.

Fyrr á árinu greindi Andri Þór frá því að félagið stefni að skráningu í Kauphöllina á næsta ári eða árið 2023.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .