„Það er ömurlegt að standa í þessu. Það er ekki mikil gleði hér í loftinu, enda er þetta líklega eitt það versta sem nokkurt fyrirtæki getur þurft að grípa til," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, um uppsagnir sem fyrirtækið greip til í dag.

Samtals er um nálægt 40 stöðugildi að ræða. Um 35 fengu uppsagnarbréf en stöðugildin verða minnkuð hjá öðrum til viðbótar sem nemur um fimm stöðugildum, að sögn Andra Þórs.

Andri  Þór segir sárt að þurfa grípa til þessara aðgerða, ekki síst þar sem fyrirtækið hafi haldið vel á spöðunum í gegnum efnahagshamfarirnar sem einkennt hafa íslenskt efnahagslíf undanfarin misseri. Um helmingur starfsmanna sem sagt var upp er af lagernum og í framleiðslu. Hinir koma meira og minna úr öllum deildum fyrirtækisins, að sögn Andra Þórs.

„Blessunarlega hefur Ölgerðin ekki oft þurft að segja upp fólki vegna hagræðingar í miklum mæli í gegnum tíðina. En það var því miður ekki hægt að skjóta sér undan þessu. Fyrirhugaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar vega þungt, þar sem þær leiða til samdráttar hjá okkur, og líklega hjá flestum í íslensku atvinnulífi. Þessar aðgerðir eru skelfilegar."

Andri Þór segir í tilkynningu frá Ölgerðinni að auknar skattaálögur, hærri vörugjöld og virðisaukaskattur þar á meðal, hafi því miður þau áhrif að fyrirtækið geti ekki annað en sagt upp starfsfólki.

„Þetta eru kaldar kveðjur til okkar ágæta starfsfólks," segir Andri Þór. Hann segir framleiðslu hafa gengið afar vel hjá fyrirtækinu og salan á vörum sé í takt við áætlanir. Fyrirtækið muni áfram vinna að því að efla starfsemi sína þrátt fyrir þessi áföll.