Andri Þór Arinbjörnsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Eignaumsýslusviðs Reita fasteignafélags. Hann hefur starfað sem verkefnastjóri á Eignaumsýslusviði fyrirtækisins frá september 2011.

Andri útskrifaðist úr byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík í janúar 2011. Síðan þá hefur hann stundað meistaranám í byggingarverkfræði með áherslu á framkvæmdastjórnun.

Andri tekur við starfinu af Guðmundi Tryggva Sigurðssyni, en hann hefur starfað hjá Reitum og forvera þeirra síðustu átta árin. Guðmundur Tryggvi mun vinna áfram að ýmsum sérverkefnum fyrir Reiti sem ráðgjafi og verktaki. Þar á meðal mun hann stýra framkvæmdum við Aðalstræti 6 fyrir hönd Reita og er fulltrúi félagsins varðandi uppbyggingu á Skeifureitnum.