Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri H.F. Verðbréfa, sagðist á fundi Viðskiptaráðs um framtíð fjármálakerfisins ekki geta tekið undir það með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að hlutafjárútboð undanfarinna mánaða og missera hafi gengið vel.

Í pallborðsumræðum sagði Andri að hnökrar hafi verið á útboðum, sem ekki hafi verið til þess fallnir að auka traust á markaðnum. Þá sagði hann að ákveðna auðmýkt vanti í fjármálakerfið og að það sé ekki alltaf í sambandi við raunveruleikann.

Nefndi hann sem dæmi um atriði sem mætti athuga þegar starfsmenn banka kaupi hlutabréf í fyrirtækjum sem viðkomandi banki sér um um að skrá á markað. Það sé ekki til þess fallið að auka trúverðugleika fjármálakerfisins.

Þá sagði Andri að eftirlit með eignarhlut bankanna í óskyldri starfsemi sé ekki nógu skilvirkt. Þar beiti bankarnir sér af fullri hörku. Það sé ekki neitt að því að viðskiptavinir geti fengið alla fjármálaþjónustu á einum stað, að því gefnu að það sé á forsendum viðskiptavinarins en ekki á forsendum bankans eða fjármálakerfisins.