United Silicon hf. (USi), sem rak kísílmálmverksmiðju í Helguvík í nokkra mánuði, er gjaldþrota. Verksmiðjan hóf rekstur þann 13. nóvember 2016 og nánast strax byrjuðu íbúar Reykjanesbæjar að kvarta undan mengun. Í stuttu máli hófst saga kísilverksmiðjunnar með ólykt í lofti og endaði með gjaldþroti, milljarða króna tapi fjárfesta og kæru á hendur Magnúsi Garðarssyni, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins. Hann er sakaður um að hafa stungið ríflega 600 milljónum króna í eigin vasa með því að gefa út falska reikninga í nafni ítalska félagsins Tenova.

United Silicon fékk fyrst heimild til greiðslustöðvunar í ágúst síðastliðnum.  Á mánudaginn barst tilkynning frá stjórn United Silicon þess efnis að nauðasamningar hefðu ekki tekist og því hefði stjórnin sent beiðni til Héraðsdóms Reykjaness um gjaldþrotaskipti á búi félagsins.

Milljarða tap

Gjaldþrotið þýðir að fjárfestar hafa orðið fyrir miklu tapi. Sem fjárfestir og einn af lánadrottnum tekur Arion banki þyngsta höggið. Í uppgjöri Arion banka fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2017 voru lán, kröfur og aðrar eignir sem tengjast United Silicon, þar með talið allt hlutafé bankans í félaginu, færðar niður um 4,8 milljarða króna. Á þessum tímapunkti var eigið fé bankans 221,5 milljarðar króna, sem þýðir að neikvæð áhrif vegna United Silicon námu ríflega 2,2% af eigin fé bankans.

Í fjárfestakynningu með 9 mánaða uppgjörinu kemur jafnframt fram að „eftirstandandi skuldbindingar bankans vegna USi í lok tímabilsins námu 5,4 ma.kr, eða 0,5% af efnahag bankans þ.m.t. lánsloforð og tryggingar“. Þrátt fyrir þetta mun ekki koma til frekari niðurfærslna í bókum Arion banka vegna United Silicon. Þetta má lesa í tilkynningu sem bankinn sendi Kauphöllinni í kjölfar gjaldþrotabeiðninnar.

Í tilkynningunni segir að gjaldþrot United Silicon hafi verið yfirvofandi um nokkurt skeið og að tekið hafi verið tillit til þess möguleika í 9 mánaða uppgjöri bankans. „Gjaldþrot félagsins leiðir því ekki til frekari niðurfærslna hjá bankanum," segir í tilkynningunni.  „Arion banki mun óska eftir því við skiptastjóra þrotabúsins að ganga að veðum sínum í eignum fyrirtækisins en bankinn, sem er stærsti kröfuhafi United Silicon, er einn á fyrsta veðrétti eigna félagsins."

Tap bankans er samt meira en 4,8 milljarðar króna því bankinn lagði félaginu fjármagn á greiðslustöðvunartímabilinu og kostað rannsóknir og greiningar á stöðunni. Sá kostnaður nam um 200 milljónum króna á mánuði eða samtals um einum milljarði.

Arion banki kostar úrbætur

Þegar verksmiðjan lokaði í lok sumars voru sérfræðingar fengnir til að meta ástand hennar. Í grófum dráttum var þeirra niðurstaða sú að grunnhönnun ljósbogaofnsins, sem er hjartað í verksmiðjunni, væri góð en góð en „aug­ljóst sé að ódýr og óvandaður jaðarbúnaður hafi orsakað tíðar bilanir og skapað erfiðleika við fram­leiðsluna".  Mat sér­fræðing­anna er að  25 millj­ón­ir evra, eða ríflega 3,1 milljarð króna, þurfi til að fullklára verksmiðjuna.

Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka er langtímamarkmið bankans að koma kísilverksmiðjunni í framtíðareigu sérfróðra aðila í þessum iðnaði.

„Fram að því er markmið okkar að vinna að því að koma verksmiðjunni í starf- og söluhæft form í tak við úrskurð Umhverfisstofnunar og það getur tekið umtalsverðan tíma. Bankinn mun þá kosta þær úrbætur sem framkvæmdar verða á því tímabili sem eignirnar verða í eigu bankans," segir í svari bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Eitt af þeim skilyrðum sem Umhverfisstofnun setur er að skorsteini verði bætt á verksmiðjuna til að minnka lyktarmengun.

„Við erum fullviss um að það fáist kaupendur, þegar hafa nokkrir áhugasamir alþjóðlegir aðilar lýst yfir áhuga. Mögulegt tap Arion banka mun ráðast af endurheimtum, þ.e. söluverði yfirtekinna eigna," segir jafnframt í svari bankans.
Arion banki staðfestir að stefnt sé að því að stofna nýtt félag um eignir United Silicon en telur rétt að taka fram að málefni verksmiðjunnar séu nú í höndum skiptastjóra.

Auk Arion banka lögðu ýmsir aðrir fé í verkefni eins og til dæmis Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Festa lífeyrissjóður,  Eftirlaunasjóður íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) og Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ).

Lífeyrissjóðir tapa

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, segir að heildarfjárfesting sjóðsins hafi numið 1.139 milljónum króna, sem sé rúmlega hálft prósent af heildareignum sjóðsins. Fjárfestingin var færð niður að fullu á síðasta ári.

Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs, segir að heildarfjárfesting sjóðsins í United Silicon hafi numið um 900 milljónum króna og hún hafi verið færð niður að fullu á síðasta ári.

Snædís Ögn Skúladóttir, framkvæmdastjóri EFÍA og LSBÍ, segir að fjárfesting EFÍA í United Silicon hafi numið 109 milljónum króna og LSBÍ hafi fjárfest fyrir 76 milljónir. Hún segir að í báðum tilfellum hafi eignirnar verið færðar niður í september í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.