John Thomas, sem nýlega var endurkjörinn í stjórn Icelandair eftir að hafa tekið þar fyrst sæti í mars í fyrra, segir andvaraleysi eitt af einkennum slíkra gamalgróinna félaga. Heimsfaraldurinn hafi gefið stjórnendum tækifæri til að endurskoða reksturinn og tryggja samkeppnishæfni.

Meðal víðtækra hagræðingaraðgerða flugfélagsins í fyrra vegna tekjuhrunsins af völdum faraldursins voru nýir kjarasamningar við stóru flugstéttirnar þrjár – flugfreyjur og -þjóna, flugmenn, og flugvirkja – sem bættu stöðu félagsins umtalsvert, en auk þess var endursamið um skilmála afborgana af lánum og leigugreiðslur flugvéla.

Sjá einnig: Mikil tækifæri yfir Atlantshafinu

„Fyrir faraldurinn stóðum við höllum fæti gagnvart sumum öðrum flugfélögum þegar kom að launakostnaði. Okkar vandi er að vissu leyti sá að með tengiflugvöll á miðju Atlantshafi sem þungamiðju flugrekstrarins er afar erfitt fyrir okkur að ná sömu nýtingu hvað áhafnir varðar og önnur flugfélög.“

„Við töldum því nauðsynlegt að tryggja samkeppnishæfni okkar í þeim efnum að faraldrinum afstöðnum,“ segir hann og þakkar bæði stjórnendum félagsins og stéttarfélögunum það að hagstæðir samningar hafi náðst, sem auki framleiðni starfsfólks og bæti þar með stöðu félagsins. „Þetta snerist fyrst og fremst um nýtinguna, ekki launakjörin sem slík.“ Engin spurning sé um að félagið sé samkeppnishæft að því leyti í dag.

Framleiðnin falli með tímanum
Spurður að því hvers vegna þær framleiðniúrbætur sem gerðar hafi verið í nýjum kjarasamningum hafi ekki verið gerðar fyrr, segir Thomas andvaraleysi eitt af algengum einkennum þess að vera gamalgróið flugfélag með langa sögu. „Þú getur hafið starfsemi með frábæra framleiðni og samninga, en eftir því sem tíminn líður er tilhneigingin sú að úr því fer að draga. Faraldurinn var því að vissu leyti tækifæri til að endurskoða reksturinn og spyrja okkur hvernig við getum tryggt samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma litið.“

„Aðferðafræði okkar í stjórninni var að skoða rekstrartölur okkar í samanburði við helstu samkeppnisaðila fyrir faraldurinn, og finna út hvaða breytingar við þyrftum að gera til að koma nægilega vel út í þeim samanburði eftir hann,“ segir hann og ber það saman við önnur flugfélög – sér í lagi þau bandarísku – sem hafi fengið stórar fjárhæðir í ríkisaðstoð til að standa undir launakostnaði, og því ekki ráðist í neinar gagngerar hagræðingar á því sviði. Að sama skapi hafi talsverð fækkun starfsfólks í Evrópu fyrst og fremst snúið að almennum samdrætti í umfangi en ekki hagræðingum sem auki framleiðni til framtíðar.

„Starfsfólk félagsins á því hrós skilið fyrir hagræðingu sem mun gera okkur kleift að ná fyrri stærð með lægri kostnaði. Icelandair var líklega eitt fyrsta félagið til þess að endursemja um kjarasamninga félagsins. Kjarasamninga getur verið afar erfitt að endursemja um án þess að um gjaldþrot sé að ræða. Það tókst þó í okkar tilfelli.“

Nánar er rætt við Thomas í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út á dögunum. Hægt er að skrá sig í áskrift hér .