„Hið opinbera á að vernda almenning og passa upp á að hann fái góða þjónustu,“ segir Angel Gurría, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Hann var aðalræðumaður á alþjóðlegri ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytsins og áfrýjunarnefndar samkeppnismála þar sem m.a. var rætt um  varnaðaráhrif sekta í samkeppnislagabrotum, samkeppnismál í litlu hagkerfi og endurreisn efnahagslífsins.

Gurría segir aðgerðir og refsiákvæði samkeppnisyfirvalda fyrir kreppu ekki hafa haft tilætluð áhrif. Nú hafi verið bætt um betur. Hann telur ekki að of miklu regluverki hafi verið hlaðið á banka og fjármálafyrirtæki eftir kreppuna. Þvert á móti sé það skylda hins opinbera að vernda almenning en ekki að styðja við fyrirtæki í einstökum greinum svo þau geti bætt afkomu sína.

Angel Gurría átti annasaman dag og ræddi hann við VB Sjónvarp í síma þar sem hann skaust á milli funda með ráðamönnum.