Angela Eagle, þingmaður Verkamannaflokksins breska, hyggst nú bjóða sig fram gegn Jeremy Corbyn, sitjandi formanni flokksins. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag þá hefur vantrauststillaga gegn Corbyn verið samþykkt af þingflokki Verkamannaflokksins.

Þó er kosningin ekki bindandi sem slík, sem þýðir að Corbyn þarf ekki að segja af sér. Hins vegar gerir hún andstæðingum hans innan flokksins kleift að blása til nýrra kosninga um það hver gegnir formannsstöðunni. Heimildir herma að það verði Eagle sem fari á móti honum, líkast til á morgun.

Eagle hefur verið þingmaður frá árinu 1992. Hún hefur verið ráðherra aldraðra auk þess sem hún var skuggafjármálaráðherra undir Ed Miliband. Hún sagði sig úr skuggaráðuneyti Corbyn í gær.