Eftir 18 ár sem leiðtogi CDU, Sambands Kristilegra Demókrata í Þýsklandi hefur Angela Merkel kanslari landsins sagt að hún hyggist ekki sækja eftir endurkjöri til formennskunnar. Lýsti hún þessu yfir á fundi í morgun en flokkurinn er með landsfund í desember. Hún var þó skýr á því að hún vildi halda áfram sem kanslari landsins.

Er tilkynningin sögð merki um minnkandi völd hennar innan flokksins og minni ánægju með störf hennar meðal þjóðarinnar. Báðir flokkarnir í ríkisstjórn Merkel, CDU og Sósíaldemókratar töpuðu illa í héraðskosningum í sambandsríkinu Hesse um helgina.

Fjármálamiðstöð Þýskalands snýr frá Merkel

Hesse er eitt ríkasta sambandsríki Þýskalands og miðstöð fjármálageirans í landinu. Fór fylgi flokks hennar niður í 27%, en Sósíaldemókratar fengu 19,8%. Í síðustu kosningum í héraðinu árið 2013 fengu flokkarnir 38,3% og 30,7%.

Nýjar kannanir hafa sýnt að fylgistap stjórnarflokkanna heldur áfram á landsvísu, eru kristilegir demókratar komnir í 24%, frá 32,9% og Sósíaldemókratar í 15% úr 20,5%. Héraðsstjórnin í Hesse samanstendur nú af Græningjum sem nú nálega tvöfölduðu fylgi sitt frá árinu 2013 og stefna í að fá 19,8% atkvæða, og kristilegum demókrötum.

Valkostur fyrir Þýskaland, AfD, sem barist hefur gegn frjálslyndri innflytjendastefnu í Þýskalandi, stefnir í nálega að þrefalda fylgi sitt og fékk flokkurinn 13,1%. Frálslyndir Demókratar bættu einnig við sig og fengu 7,5% frá 5% fyrir fjórum árum sem og Vinstri flokkurinn sem bætti við sig rúmu prósentustigi og fékk 6,3%.

Röð áfalla vegna opinna landamæra

Er þetta annað áfallið sem kristilegir demókratar í landinu verða fyrir á árinu en 14. október síðastliðinn missti systurflokkur CDU, Kristilega félagssambandið, CSU, sem starfar einungis í Bæjaralandi meirihluta sinn í sambandsríkinu.

Flokkurinn hefur ráðið ríkinu síðan við lok seinni heimsstyrjaldarinnar, fyrir utan þrjú ár, en Bæjaraland stóð í eldlínu hælisleitendakrísunnar árið 2015, en þegar mest lét voru þúsundir hælisleitenda sem fóru yfir landamærin inn í héraðið á hverjum degi. Í heildina komu yfir milljón hælisleitenda til Þýskalands það ár eftir yfirlýsingar Merkel um opin faðm fyrir þá.

Viðurkenndi Merkel um miðjan mánuðinn að kjósendur hefðu misst trú á ríkisstjórninni og það væri hennar starf að „tryggja að það traust væri endurvakið.“ Sagðist hún ætla að vinna að því af eins miklu afli og hún gæti að því er CNN segir frá.