Angela Merkel, kanslari Þýskalands útilokar fleiri skattalækkanir fram að kosningum sem fram fara í september á næsta ári.

Þetta kom fram í ræðu Merkel á flokksfundi Kristilegra demókrata í dag en Merkel sagði að skattalækkanir myndu lítil áhrif hafa til betri vegar um þessar mundir.

Merkel sagðist ekki sjá tilganginn með því að þýsk yfirvöld fari að lækka skatta nú þegar hún var spurð um hvernig Þýskaland gæti komist fyrr en aðrar þjóðir út úr efnahagskrísunni sem nú ríður yfir alþjóðahagkerfið.

Merkel sagði að skattgreiðendur myndu spara það fé sem fengist með skattalækkunum en ekki nýta það til einkaneyslu fyrst um sinn. Því myndu skattalækkanir ekki hafa jákvæð áhrif á hagkerfið.

Þá sagði Merkel, sem sætt hefur gagnrýni fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, að nú væri ekki tíminn til að fara í skattasamkeppni við aðrar þjóðir Evrópusambandsins.

Þýsk stjórnvöld hafa nú þegar varið um 480 milljörðum evra í björgunarpakka til handa fjármálakerfi landsins.

Stjórnarandstæðingar í Þýskalandi hafa hins vegar krafist þess að ríkisstjórnin veiti fólki og fyrirtækjum skattaívilnanir líkt og gert hefur verið í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum.