Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir það koma Grikkjum vel að halda í evruna í stað þess að kasta henni fyrir róða og taka drökmuna upp að nýju.  Hún leggur áherslu á að Grikkir lúti reglum myntbandalagsins og standi við skuldbindingar sínar.

Merkel var í viðtali við bandarísku fréttastofuna CNBC um vandræðaganginn við stjórnarmyndunarviðræður á Grikklandi.

Í viðtalinu talar Merkel jafnframt fyrir því að Grikkir fari eftir því samkomulagi sem þáverandi stjórn Grikklands gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópusambandið og fulltrúa kröfuhafa gríska ríkisins.

Í nýjasta tölublaði breska vikuritsins Economist segir hins vegar að ljóst sé af niðurstöðum þingkosninganna í Grikklandi um þarsíðustu helgi að landsmenn vilji ekki lengur sjá evruna og vilji þeir ekki kyngja þeim meðölum sem felast í harkalegum niðurskurði á útgjöldum gríska ríkisins sem boðaðar hafa verið í tengslum við lánasamkomulag stjórnvalda við kröfuhafa. Í vikuritinu segir næsta víst að Grikkir kasti evrunni og verði hugsanlega sparkað úr Evrópusambandinu. Standi landið ekki við skuldbindingar sínar komi það Þjóðverjum og fjármálafyrirtækjum þar mjög illa.