Þrjú ár eru síðan Angelina Jolie lék síðast í stórmynd, en það var myndin The Tourist sem skartaði henni og Johnny Depp í aðalhlutverki. Tekjur af myndinni voru undir væntingum.

Síðan þá hefur Jolie verið mest umrædd fyrir einkalíf sitt en hún gekkst á dögunum undir tvöfalt brjóstnám, eins og frægt er orðið. Þrátt fyrir það getur Jolie enn krafist himinhárra launa fyrir réttu myndina.

Forbes telur að Jolie hafi verið með 33 milljónir dala, eða fjóra milljarða króna, í laun á tímabilinu júní 2012 til júní 2013. Það sé um þrettán milljónum meira en hún var með árið á undan. Þrátt fyrir þessi miklu laun hefur Jolie ekki leikið í kvikmynd síðan 2010. Tekjur hennar eru hins vegar tilkomnar vegna auglýsinga og hún hefur jafnframt nýverið leikstýrt bíómynd.

Næsta kona á listanum er Jennifer Lawrence en hún var með 24 milljónir dala á sama tímabili, eða 2,9 milljarða íslenskra króna.