"Þessi skuldabréfaútgáfa fyrir mexikóska markaðinn er í samræmi við stefnu okkar að dreifa fjármögnun bankans yfir fleiri markaðssvæði. Við erum mjög ánægð með viðtökurnar og sátt við kjörin," segir Guðni Aðalsteinsson, Framkvæmdastjóri Fjárstýringar í tilkyninningu.

Kaupþing banki hf. hefur gefið út skuldabréf í Mexikó fyrir 2,3 milljarða pesa eða sem nemur 13 milljörðum króna. Þetta er fyrsta skuldabréfaútgáfa Kaupþings í Rómönsku-Ameríku og fyrsta skuldabréfaútgáfa norræns banka í Mexíkó.

Skuldabréfaútgáfan er til fimm ára og greiðir TIIE + 25 punkta í vexti, sem samsvarar 72 punkta álagi yfir þriggja mánaða millibankavöxtum í Bandaríkjadölum (LIBOR). Útgáfan kemur í kjölfar vel heppnaðra fjárfestakynninga í Mexikóborg og Monterrey segir í tilkynningu. Umsjón með skuldabréfaútgáfunni höfðu BBVA Bancomer og Lehman Brothers.