Tekjur Actavis á öðrum ársfjórðungi voru tæpar 109 m. evra, sem er rúmlega 42% vöxtur frá fyrra ári og tekjuvöxturinn á fyrstu sex mánuðum ársins er 45,7%. Tekjur Actavis á fjórðungnum eru 14% meiri en Greiningardeild KB banka gerði ráð fyrir. Almenn ánægja var með uppgjör Actavis meðal greiningaraðila og hækkuðu bréf félagsins um 1,9% í gær.

Innri vöxtur félagsins nam 11,5% á fjórðungnum. Þar af nam innri vöxtur sölu til þriðja aðila rúmlega 22% en 6% vöxtur varð af sölu eigin vörumerkja sem er viðsnúningur frá 1. fjórðungi þegar tekjur drógust saman um 11%. Þessi viðsnúningur er helsta orsök vanmats Greiningardeildar KB banka á tekjum Actavis á fjórðungnum.

Hagnaður Actavis eftir skatta dróst saman um 2,8% milli fjórðunga og var 13,9 m evra en Greiningardeild gerði ráð fyrir 11,6 m.evrum. Auk hærri veltu en gert var ráð fyrir var skathlutfall félagsins á fjórðungnum 11,8% sem er töluvert lægra en við gerðum ráð fyrir. Framlegð félagsins var í takt við okkar væntingar, 24,2% sem er heldur lægri framlegð en 2003 en það skýrist af kostnaði (3 m. evra) við nafnbreytingu félagsins sem var gjaldfærður að fullu á fjórðungnum.

"Við teljum uppgjörið gott og ánægjulegt að sjá vöxt í sölu eigin vörumerkja þrátt fyrir óróa á mörkuðum í Tyrklandi og Búlgaríu fyrr á árinu. Svo virðist sem félagið hafi komist vel frá því og í tilkynningu með uppgjörinu segir að stjórnvöld í Búlgaríu hafi skrifað undir nýjar endurgreiðslureglur þann 29. júlí síðastliðinn sem gert er ráð fyrir að taki gildi í lok september," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Uppgjörið virðist við fyrstu sín ekki gefa tilefni til breytingar á verðmati Greiningardeildar KB banka. "Við færðum félagið í markaðsvogun úr undirvogun við síðustu afkomuspá og þetta uppgjör styrkir enn frekar þá ákvörðun."