Uppgjör Bakkavarar var gott og yfir væntingum Greiningardeildar KB banka hvort heldur sé litið til tekna eða hagnaðar. Hagnaður tímabilsins var 4,4 milljónir punda samanborið 3,7 miljón punda spá Greiningardeildar. Rekstur Bakkavarar hefur greinilega gengið vel og náði félagið settum markmiðum á fjórða ársfjórðungi ársins 2004 segir greiningardeildin.

Nú er í gangi áreiðanleikakönnun vegna tilboðs Bakkavarar í Geest Plc. Ef allt gengur að óskum mun sameining félaganna eiga sér stað næstkomandi sumar. Mun þá Bakkavör fimmfaldst í stærð og tífalda veltu sína. Niðurstaða áreiðanleikakönnunar mun að öllum líkindum liggja fyrir í lok febrúar.

Greiningardeild mælir áfram með að fjárfestar haldi bréfum sínum í félaginu og í dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenskum hlutabréfamarkaði mælum með yfirvogun á hlutabréfum Bakkavarar. Helsta ástæða yfirvogunar eru væntingar um yfirtöku eða samruna Bakkavarar og Geest á næstu mánuðum sem gæti leitt til meiri hækkunar bréfa félagsins en íslenska markaðinum í heild.

Greiningardeild Landsbankans segir að afkoma Bakkavarar á fjórða ársfjórðungi 2004 sé í takt við spá okkar. Velta var 43 m. punda og hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var tæplega 7,4 m. punda sem er eins og spá okkar gerði ráð fyrir. Framlegð sem hlutfall af veltu var 17,1% (spá 17,4%). Vöxtur tekna á fjórða ársfjórðungi á milli ára var 18,7%. Hagnaður á fjórðungnum var 4,4 m. punda sem er aðeins lægra en í spá okkar (4,7 m. punda) og jókst um 42% á milli ára.