Uppgjör Marels fyrir annan ársfjórðung er í heildina litið mjög gott og yfir væntingum Greiningardeildar KB banka. Það sem einkum kemur á óvart er mikil aukning í framlegð félagsins, veiki blettur uppgjörsins er lítill tekjuvöxtur en bætt framlegð bætir það upp og gott betur.

Í frétt frá greiningardeild KB banka kemur fram að ljóst sé að uppgjörið gefi tilefni til endurskoðunar á verðmati félagsins og að öllum líkindum til hækkunar. Við höldum ráðgjöf okkar um yfirvogun óbreyttri enn sem komið er, en bréfin hækkuðu verulega við birtingu uppgjörs eða um 7,7% og er um 30% hærra en síðasta verðmat okkar.

Greiningardeild Íslandsbanka hyggst einnig taka verðmat sitt á Marel til endurskoðunar innan skamms. "Það sem skýrir bætta framlegð er lægra kostnaðarverð seldra vara en brúttó framlegð hækkaði úr 33,1% í fyrra í 37,6% í ár. Stjórnendum Marel virðist vera að takast það ætlunarverk sitt að auka framlegð rekstrarins í viðunandi horf en hún hefur verið slök á undanförnum árum. Framlegðin hefur batnað vegna stöðlunar á vöruframboði, lægri innkaupakostnaði vegna endursamninga við birgja og fækkun þeirra. Auk þess eiga skipulagsbreytingar og miklar fjárfestingar á undanförnum árum hlut að máli. Fram kom á kynningarfundi félagsins í morgun að framleiðni starfsmanna í framleiðslunni hefur batnað verulega. Engu að síður telja stjórnendur að mikill framlegðarbati sé enn mögulegur vegna þessara þátta," segir í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.