Kaupum lífeyrissjóðanna á skuldabréfum í vörslu Seðlabanka Íslands, sem tilkynnt var um í morgun, hefur verið vel tekið sé miðað við þróun á skuldabréfamarkaði í morgun. Verðtryggð skuldabréfavísitala Gamma hefur hækkað um tæp 0,7% það sem af er degi.

Mikilvægt var að eyða óvissu um hvað yrði gert við þessi bréf sem Seðlabankinn keypti fyrir hönd ríkissjóðs af Seðlabankanum í Lúxemborg. Um verulega stórar upphæðir er að ræða eða um 88 milljarða króna. Nú anda margir léttar yfir því að þessi bréf voru ekki seld á almennum markaði sem hefði haft mikil áhrif á skuldabréfamarkaðinn til hins verra fyrir fjárfesta sem eiga slíka bréf. Óvissunni hefur því verið eytt.

Einnig er það talið jákvætt að þessi viðskipti hefur engin áhrif á þær krónur sem eru nú í eigu lífeyrissjóðanna enda greiða þeir fyrir bréfin í evrum með því að selja erlendar eignir. Á þessu ári munu um 120 milljarðar króna renna inn í sjóðina í formi lífeyrisgreiðslna sjóðsfélaga, vaxta og verðbóta af eignasafninu. Að auki sagði Arnar Sigurmundsson á blaðamannafundinum í morgun að sjóðirnir væru með háar fjárhæðir á bankareikningum.

Það gerir að verkum að lífeyrssjóðirnir þurfa áfram að fjárfesta í krónueignum á innlendum markaði, því gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir að þeir geti fjárfest erlendis. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í morgun að viðskiptin sem voru kynnt myndu ekki hafa afgerandi áhrif á fjármögnum Íbúðalánasjóðs og fyrirhugaða útgáfu hans á árinu. Arnar bætti við að lífeyrissjóðirnir þyrftu að fjárfesta í krónum eins og áður þrátt fyrir þessi viðskipti.