Bruggverksmiðjan Anheuser-Busch, sem nýlega hefur samþykkt yfirtökutilboð belgíska bjórframleiðandans InBev NV, kynnti afkomu sína frá síðari ársfjórðungi í dag.

Var hagnaðurinn meiri en búist var við. Það er rakið til verðhækkana og þess að fyrirtækið kynnti á tímabilinu nýja vöru sem var vel tekið, en það er Bud Light Lime.

Hagnaður annars ársfjórðungs jókst um tvö prósent en hann nam tæpum 689 milljónum Bandaríkjadala. Það jafngildir 95 sentum á hvern hlut. Sé hagnaðurinn borinn saman við árið í fyrra þá nam hagnaður annars ársfjórðungs ársins 2007, 677 milljónum Bandaríkjadala eða um 88 sentum á hlut.

Sala jókst einnig á tímabilinu um 4,6 af hundraði. Seldi fyrirtækið bjór sem svarar 43,1 milljón tunnum.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu.